Ábyrg ákvörðunartaka (1)
Skynsamlegar ákvarðanir
Þegar þú kaupir þér ný föt, veltir þú fyrir þér umhverfissporinu sem fötin skilja eftir sig?
Staðreyndin er sú að því oftar sem við kaupum ný föt og losum okkur við gömul þeim mun meiri áhrif erum við að hafa á auðlindir heimsins. Vissir þú að tísku og textíliðnaðurinn ber ábyrgð á allt að 10% útblæstri koltvísýrings á heimsvísu, sem er meira en öll flug- og skipaumferð gerir, samkvæmt Umhverfisstofnun sameinuðu þjóðanna.
Fataframleiðsla í mörgum af stærstu iðnríkjum heims, s.s. Kína, Indlandi og Bangladess hefur eyðilagt lífríki í mörgum stórám þar sem skólp frá verksmiðjunum fer beint út í árnar. Þessar stórár eru orðnar fullar af krabbameinsvaldandi efnum og í ofanálag eru örsmáar plastagnir sem koma frá gerviefnum í fataframleiðslunni að berast áfram með ánum út í sjó sem mengar bæði fæðu- og ferskvatnskeðju heimsins.
Ef við viljum vera ábyrg gagnvart umhverfinu ættum við að verða meðvituð um neysluvenjur okkar og takmarka kaup á fatnaði eða velja fatnað úr hreinum efnum frá umhverfisvottuðum fataframleiðendum.
Æfing dagsins
Hugsum okkur tvisvar um áður en við verslum okkur föt og losum okkur við gömul í staðinn. Ef við ákveðum að losa okkur við gömul föt reynum þá að fara með þau í endurvinnslu eða gefum þau.