Sjálfsmildi
Í mörgum sálfræðirannsóknum hefur verið sýnt fram á að sjálfsmildi er nauðsynleg fyrir andlega heilsu og vellíðan með því að vinna gegn kvíða og þunglyndi. Hinn frægi hamingju fyrirlesari og rannsakandi, prófessor Raj Raghunathan við McCombs School of Business við háskólann í Texas, bendir á að þegar hlutirnir ganga ekki vel hjá okkur, eigum við að æfa okkur í sjálfsmildi og þegar hlutirnir ganga vel hjá okkur eigum við að æfa okkur í þakklæti. Að æfa sig í sjálfsmildi felst í því að dæma okkur ekki of hart fyrir það sem við höfum gert rangt, heldur hugsa okkur hvernig við myndum leiðbeina vini okkar sem væri í sömu stöðu og nota sömu orð til að tala við okkur sjálf.
Æfing dagsins
Gerum eina stutta sjálfsmildis æfingu. Hún felst í því að koma fram við okkur eins og við myndum koma fram við góðan vin eða fjölskyldumeðlim sem mistókst eitthvað eða náði ekki markmiði sínu. Æfingin felst í því að tala við okkur sjálf með góðvild og samkennd að leiðarljósi líkt og við myndum tala við aðra.